Samtök fjármálafyrirtækja segja í yfirlýsingu á vefsíðu sinni að aðaláhersla samtakanna sé að allir aðilar sem starfi á fjármálamarkaði búi við samræmt regluverk og sömu kvaðir og skyldur. Nokkur umræða hefur verið um umsögn SFF um frumvarp til breytinga á lögum um skyldutryggingu. SFF segir í yfirlýsingunni að þau fagni allri samkeppni á fjármálamarkaði, en leggi hins vegar áherslu á jafnrétti þegar komi að því.

„En eins og bent er á í umsögninni þá er samkeppnisstaða lánafyrirtækja og lífeyrissjóða ójöfn. Þannig greiða lífeyrissjóðir ekki sérstaka skatta á borð við banka- og fjársýsluskatt sem einungis eru lagðir á aðildarfélög SFF auk þess sem þau búa við mun strangara eftirlit og regluverk þegar kemur að lánveitingum til þess að koma í veg fyrir kerfislega áhættu,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá bentu Landssamband lífeyrissjóða á að það væri fráleit krafa að banna sjóðfélagalán og að það væri almenningi í hag að lífeyrissjóðir hefðu frelsi til að veita sjóðsfélögum sínum slík lán.

Í yfirlýsingunni frá SFF segir hins vegar að umsögnin hafi verið skilin svo að SFF leggi ríka áherslu á að bann verði lagt á lánveitingum lífeyrissjóða, en að það hafi ekki verið áætlunin með umsögninni.

„Eitt af meginhlutverkum SFF er að stuðla að upplýstri umræðu um fjármálakerfið og mikilvægi þess fyrir framgang efnahagslífsins. Sá hluti umsagnarinnar sem hefur verið til umræðu, á undanförnum dögum, fjallar um hætturnar sem geta falist í lánveitingum aðila á fjármálamarkaði og nauðsyn þess að tryggja að regluverk sé samræmt og tryggt,“ segir í tilkynningunni.