Seðlabankar um allan heim keppast nú við að smyrja hjól atvinnulífsins með dælingu lausafjár á markaði – Seðlabanki Íslands ætti að gera slíkt hið sama. Þetta kemur fram í nýrri ályktun Samtaka Iðnaðarins um efnahagsmál.

Samtökin kalla eftir tafarlausri vaxtalækkun: „ Atvinnulífið rís ekki undir þessu vaxtastigi. Enn ein verðbólguholskefla mun  ríða yfir að óbreyttu gengi hvað sem vaxtastigi líður. Hratt minnkandi spenna í atvinnulífinu réttlætir myndarlega lækkun,” segir í ályktuninni.

Samtökin benda jafnframt á að yfirvöld ættu hið fyrsta að gefa út yfirlýsingu þess efnis að stefnt verði að því Maastricht-skilyrði Evrópusambandsins verði uppfyllt hið fyrsta. Slíkt gefi fyrirheit um stöðugleika. Samtökin hafa markað þá stefnu að Ísland eigi að ganga í sambandið og taka upp evruna. „.. uppfylling Maastricht-skilyrðanna er eðlilegur og sjálfsagður millileikur,” segir í ályktuninni.

Jafnframt er kallað eftir því að yfirvöld geri grein fyrir hvernig eigi að bregðast við gjalddögum jöklabréfa á næstu mánuðum.