Hér á landi hafa verið mjög háir skattar á gosdrykkjum og öðrum drykkjarvörum í rúm 30 ár eða allt þar til skattar á matvæli voru samræmdir 1. mars árið 2007. Á sama tíma hefur neysla á gosdrykkjum aukist og er meiri hér á landi en annars staðar í Evrópu.

Þetta kemur fram í skýrslu frá Samtökum iðnaðarins (SI) þar sem farið er yfir nokkrar staðreyndir um skattlagningu matvæla í tilefni af umræðu um sérstaka skattlagningu gosdrykkja.

Í skýrslu SI kemur fram að næstir Evrópubúa á eftir Íslendingum koma Norðmenn sem einnig leggja háa skatta á gosdrykki. Gosdrykkjaneysla er aftur á móti mun minni í Svíþjóð sem þó leggur ekki sérstaka skatta á gosdrykki.

„Það virðist því vera eitthvað annað en skattlagning sem ræður neyslunni. Hér er því ekki um það að ræða að gera tilraun með skattlagningu gosdrykkja. Tilraunin hefur þegar verið gerð og ekki skilað árangri,“ segir í skýrslu SI en jafnframt er bent á það að samfara heilsubylgju undanfarinna ára hefur áhersla í vöruþróun drykkjarvörufyrirtækjanna einkum beinst að þróun sykurlausra drykkja og vatnsdrykkja með mjög lágt eða ekkert sykurinnihald og hefur hlutfallsleg aukning verið langmest í sölu vatnsdrykkja.

Þá segir jafnframt í skýrslu SI:

„Margítrekað hefur komið fram að ríkisstjórnin eigi ekki annars kost en að bæði skera niður útgjöld og hækka skatta. Sé álagning sérstaks skatts á gosdrykki, í formi vörugjalds, ein leið ríkisstjórnarinnar til að bæta afkomu ríkissjóðs eiga menn að segja það hreinskilnislega og þá liggur beinna við að skattstofninn verði mun breiðari og skattlagningin einfaldari. Það er afleitt að stíga skref til baka í átt til aukins flækjustigs í skattlagningu matvæla.“

Það sem hér fer eftir er birt óbreytt úr skýrslu SI:

Árið 2007 tóku gildi lög sem fólu í sér að öll matvæli skyldu flutt í nýtt 7% virðisaukaskattþrep. Áður voru matvæli ýmist í 14% eða 24,5% virðisaukaskattþrepi.

Þar með var það stóra skref stigið að öll matvæli, hverju nafni sem nefnast, skyldu höfð í sama þrepi virðisaukaskattsins. Eina undantekningin frá þessu er að áfengir drykkir bera enn 24,5% virðisaukaskatt.

Samtímis breytingunni á virðisaukaskattinum var ákveðið að fella niður vörugjöld af matvælum með undantekningum þó. Vörugjöld voru t.d. felld niður af öllum drykkjarvörum, ís, hnetum, súpum, grautum, búðingsdufti, sultum, niðursuðuvörum, mjólkurvörum, kaffi, te o.fl. Þessar breytingar voru liður í þeirri viðleitni stjórnvalda að lækka verð á matvörum á Íslandi og einfalda um leið skattkerfið og draga þar með úr kostnaði við það.

Alþingi ákvað hins vegar að halda áfram að leggja vörugjöld á allan sykur og sætindi sem falla undir 17. kafla tollskrárinnar. Auk sykurs í margvíslegu formi er þar að finna sælgæti s.s. tyggigúmmí, lakkrís, brjóstsykur, karamellur o.fl. Vörugjaldið er ýmist 30 eða 60 kr. á hvert kíló sykurs eða sætinda. Þá er lagt 50 kr. vörugjald á hvert kíló af vörum eins og súkkulaði, páskaeggjum, íssósum og ídýfum, konfekti, súkkulaðihjúpuðum hnetum og rúsínum, lakkrís, karamellum og hlaupi. Þá ber bragðbætt eða litað sykursýróp 30 kr. vörugjald á hvert kíló. Rétt er að hafa í huga að 7% virðisaukaskattur leggst síðan ofan á vörugjaldið.

Til þess að gæta jafnræðis milli innilendrar framleiðslu og sambærilegrar erlendrar framleiðslu, sem hingað er flutt, fá íslenskir framleiðendur felld niður vörugjöld af hráefnum til sinnar framleiðslu, þ.m.t sykri. Ef það væri ekki gert væri verið að skattleggja innlenda framleiðslu umfram innflutning.

Reynsla af vörugjaldi á matvæli

Í skýrslu Hallgríms Snorrasonar, fyrrverandi Hagstofustjóra, frá 13. júlí 2006 um matvælaverð á Íslandi segir þetta um vörugjaldið: „Vörugjaldið var upphaflega lagt á með bráðbirgðalögum sem liður í efnahagsráðstöfunum um mitt ár 1975. Það bar þá heitið sérstakt tímabundið vörugjald og voru lögin þar að lútandi framlengd ár hvert uns gjaldið var lagt á ótímabundið með lögum frá árinu 1987. Þau lög eru stofn núgildandi laga en á þeim hafa verið gerðar margháttaðar breytingar í áranna rás. Á seinni árum virðist einkum mega skýra álagningu vörugjalds með viðleitni til að afla ríkissjóði tekna. Þá gætir tvenns konar viðhorfa í núverandi beitingu gjaldsins. Annars vegar gætir viðleitni til neyslustýringar en gjaldtakan hefur einatt verið réttlætt með því að æskilegt sé að hafa háa skatta á matvörum sem eru taldar óhollar eða óæskilegar í einhverjum skilningi. Hins vegar er gjaldinu beitt til þess að vernda innlenda búvöruframleiðslu með því að gjaldið er lagt á samkeppnis- eða staðkvæmdarvörur mjólkurafurða, bæði innlendar og innfluttar.“

Í skýrslunni bendir Hallgrímur auk þess á ýmsan kostnað og óhagræði sem felst í tvöföldu skattkerfi auk þess sem slíkar flækjur gefa tilefni til undanskota. Þá er bent á að gjaldið brengli verðhlutföll og gefi ranga mynd af undirliggjandi verði jafnframt því að mynda skjól fyrir óeðlilega hátt verð á samkeppnisvörum. Því má leiða að því líkur að álagning vörugjalds á einn vöruflokk muni hækka almennt verðlag á matvörum.

Áhrif á drykkjarvöruframleiðendur

Gosdrykkir á markaði hérlendis eru svo til eingöngu framleiddir í landinu en innflutningur hverfandi. Þrátt fyrir að samdráttur í neyslu gosdrykkja verði óverulegur munu auknar álögur á gosdrykki samt sem áður koma niður á innlendum framleiðendum sem aukinn kostnaður og leggja þeim á herðar kröfu um enn meiri hagræðingu í rekstri. Það má því búast við að einhver störf tapist en íslensk fyrirtæki berjast nú þegar harðri baráttu við að halda í starfsfólk sitt við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja.

Árangur neyslustýringar

Í umræðu um sérstakan skatt á gosdrykki hefur hvorki komið fram hversu hár skatturinn ætti að vera né hvaða árangurs stjórnvöld vænta. Vonir heilbrigðisráðherra standa til að draga megi úr gosdrykkjaneyslu. Ekki hefur komið fram hve mikið neyslan á að minnka eða hvað fólk á að drekka í staðinn. Eða hvernig á að tryggja að það verði orkuminni vörur sem ekki valda tannskemmdum.