„Ég er ansi hræddur um að þetta hafi verið minn síðasti landsleikur,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen í samtali við iþróttafréttamann RÚV eftir umspilsleik íslenska landsliðsins gegn Króatíu um sæti á HM 2014 í kvöld. Króatía hafði betur með tveimur mörkum gegn engu hjá íslenska landsliðinu. Eiður og fleiri leikmenn landsliðsins sögðust mjög vonsviknir yfir tapi liðsins.

Eiður var klökkur þegar fréttamaður RÚV spurði hann að því hver framtíð hans verði með landsliðinu eftir leikinn og þurfti að því virtist að þurrka tár af vöngum eftir að spurningin var borin upp. Eftir að Eiður Smári svaraði spurningunni faðmaði fréttamaður hann að sér áður en þeir kvöddust.

EIður Smári lék sinn fyrsta landsleik fjórtán ára að aldri með landsliði karla undir 17 ára aldri árið 1992.

Fjöldi Íslendinga fór utan til að sjá leikinn á Maksimir-leikvanginum í Zagreb í Króatíu í kvöld en um þrjár farþegavélar flugu utan með áhorfendur. Þar á meðal voru Skúli Mogensen , stofnandi og forstjóri Wow air, lögmaðurinn Hróbjartur Jónatansson og fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson.