Vegna frétta um að átta fyrrverandi starfsmenn SÍF hafi stofnað fisksölufyrirtæki sem ætlað er að fara í beina samkeppni við SÍF og dótturfélag þess, Iceland Seafood, telja stjórnendur SÍF að tímasetning og umgjörð uppsagna starfsmannanna sé með þeim hætti að markmiðið hafi verið að reyna að skaða félögin. "Í ljósi þessa og þeirra skuldbindinga sem viðkomandi starfsmenn hafa gagnvart félaginu, hefur verið ákveðið að fara fram á lögbann við því að starfsmenn félagsins brjóti gegn ráðningarsamningum sínum með því að hefja samkeppni við félagið," segir í tilkynningu frá félaginu.

Ennfremur hefur verið ákveðið að óska eftir lögreglurannsókn vegna rökstudds gruns um að eigur og trúnaðarupplýsingar félagsins hafi verið misnotaðar í þessu ferli.

Stjórnendur SÍF og Iceland Seafood segja ennfremur að félagið óttist ekki samkeppni enda sé staða þess afar sterk á mörkuðum fyrir sjávarafurðir.