Sigla ehf. félag þeirra Tómasar Kristjánssonar og Finns Reys Stefánssonar, seldi í dag 22,3 milljónir hluta í félaginu á genginu 25,5 krónur, að því er fram kemur í tilkynningu til kauphallarinnar. Söluandvirðið er því um 568,7 milljónir króna. Félagið átti fyrir 7,86% hlut í Regin en hluturinn er núna kominn í 6,4% af heildarhlutafé.

Sigla varð einn stærsti hluthafi Regins eftir að Reginn keypti Klasa, sem var í eigu Tómasar, Finns og Ingva Jónassonar í apríllok 2014. Gengi bréfa Regins var þá um 16,4 krónur á hlut og miðað við það nemur nettóhagnaður Siglu af viðskiptunum, ef aðeins er miðað við breytingar á gengi bréfa Regins, um 203 milljónum króna.

Það sem af er degi nemur velta í viðskiptum með bréf Regins 777 milljónum króna og hefur gengið hækkað um 2,59% og stendur það nú í 25,7 krónum á hlut.

Tómas situr í stjórn Regins.