Athafna- og fjölmiðlamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson hefur verið ráðinn talsmaður FESK, nýs félags í eigu svínabænda, eggjabænda og kjúklingabænda. Bændablaðið greinir frá málinu og segir að samtökin hyggist stuðla að upplýstri og ábyrgri umræðu um landbúnað á Íslandi.

„Í nútíma samfélagi er offramboð af upplýsingum og því miður eru upplýsingarnar oft harðsoðnar, stuttar og klipptar úr samhengi. Mitt hlutverk verður að létta á bændum með því að fylgjast með umræðunni og svara fyrir þá þætti sem FESK telur ekki nægilega skýra,“ er haft eftir Sigmari.

Sótt sé að íslenskum landbúnaði. „Það er samfélagslega mikilvægt að ræða þessi mál án sleggjudóma. Landbúnaður snýst um samfélagið okkar, þjóðina, heilsu og náttúruvernd. Allt eru þetta málefni sem eru gríðarlega mikilvæg, ekki bara hér á landi, heldur allsstaðar í heiminum. Matvælaframleiðsla, lýðheilsa og sjálfbærni, eru stór þáttur í verkefnum allra stjórnvalda í heiminum. Ísland hefur ennþá sterka stöðu í þessum efnum og hana ber að verja. FESK mun leggja sitt af mörkum til að svo megi verða áfram,“ segir Sigmar.