Það hafa margir hringt í fjölmiðla til að koma áfram kjaftasögum um að ég eigi von á barni með annarri konu en minni eigin. Kjaftasögurnar voru áberandi um tíma og nú er víst búið að skipa í hlutverk konunnar. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni.

Með slíkum sögusögnum er verið að gera andstæðinginn ótrúverðugan. Reynt sé að gera mönnum lífið það leitt að þeir nenni ekki að standa í þessu, sagði Sigmundur sem segist jafnframt vera orðinn vanur þessu. Þetta sé hinsvegar hvorki gott fyrir stjórnmálamenn né gott fyrir fjölskyldur. Hægt sé að hlæja að þessu þó þetta sé ekkert hlægilegt.

Sigmundur sagði einnig í þættinum það hafa verið merkilegt að fylgjast með umræðunni sem skapaðist í kringum fríið sem hann tók sér með fjölskyldunni. Hann sagði stjórnmálamenn ekki eiga að eyða tíma sínum í slíka gagnrýni enda slæmt fyrir alla stjórnmálamenn. Þetta hafi verið hans fyrsta almennilega frí með fjölskyldunni í fimm ár.