Menn þorðu ekki að tjá sig um stefnu stjórnvalda og nú er vart löngunar til að fá útrás vegna gremju síðustu ára, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Hann sagði í erindi sínu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs í dag marga atvinnurekendur hafa haft á orði að fjandskapur við atvinnulífið væri slíkur að menn lifðu í ótta og legðu ekki í að tjá sig um stefnu stjórnvalda.

„Eftir þolinmæði síðasta kjörtímabils er eins og sumir af forvígismönnum atvinnurekenda telji sig þurfa að bæta fyrir tapaðan tíma. Dæmi eru um að þeir telji best að gera það með því að skipa sér á bekk með pólitískum krossförum úr háskólasamfélaginu eða líkja eftir upphrópanaorðræðu internetsins,“ sagði Sigmundur og varaði forsvarsmenn í samtökum atvinnurekenda þurfa að varast að verða eins og ferðalangurinn í sögunni um tjakkinn sem eftir miklar hrakfarir var sannfærður um að allir væru á móti sér.

„Ég veit að menn töldu rétt að sýna þolinmæði á síðasta kjörtímabili og þorðu jafnvel ekki að gagnrýna stjórnvöld af ótta við að lenda á svörtum lista, en það gagnar ekki að fá útrás fyrir það núna þegar losnar um og komin er ríkisstjórn sem skilur þarfir atvinnulífs og hefur sýnt að hún er tilbúin til að taka slagi og fá yfir sig nokkrar gusur til að rétta stöðu atvinnulífsins,“ sagði Sigmundur.