Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fundaði með Má Guðmundssyni seðlabankastjóra í morgun vegna ákvörðunar Promens um að flytja úr landi. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, við upphaf þingfundar í dag. RÚV greinir frá þessu.

Ráðherra sagði að fyrirtækið hafi fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftum á undanförnum árum. Það hafi viljað kaupa gjaldeyri á afslætti til að nota við fjárfestingar erlendis. Ráðherrann sagði enn fremur að ákvörðun um flutning hafi verið tekin eftir að fyrirtækið hafi verið selt.

Viðskiptablaðið greindi í hádeginu frá því að Samtök iðnaðarins hafi í morgun sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra bréf þar sem óskað var eftir fundi vegna skaðlegra áhrifa gjaldeyrishaftanna á íslensk iðnfyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni og á hraðvaxandi fyrirtæki á sviði nýsköpunar. Afrit af bréfinu var sent Sigmundi Davíð.