*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 19. október 2014 18:17

Sigmundur verður ekki dómsmálaráðherra

94% af umsóknum um Leiðréttinguna hafa verið afgreiddar. Forsætisráðherra hefur ekki áhyggjur af fylgistapi Framsóknar.

Jóhannes Stefánsson
Haraldur Guðjónsson

Einungis lítill hluti af umsóknum um Leiðréttingu stendur út af svo umsækjendur geti fengið greitt inn á lánin. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, dómsmála- og forsætisráðherra í þættinum Eyjunni á Stöð 2. „Það er búið að reikna 94%. 6% standa útaf. Þessi flóknustu tilvik þar sem fólk hefur verið að flytja, skilja og skipta lánunum upp," sagði Sigmundur.

Aðspurður segir hann að búið verði að afgreiða allar umsóknir á næstu vikum.

Skiljanlegt að fólk sé óþolinmótt

Aðspurður hvort það kæmi á óvart hversu mikið fylgistap Framsóknarflokksins hefði orðið eftir kosningar sagði Sigmundur að fylgistapið væri eðlileg afleiðing af óþolinmæði meðal þjóðarinnar. Fólk hefði beðið lengi eftir að fá úrlausn sinna mála síðan eftir hrun og því ekki að undra að margir væru orðnir óþreyjufullir. Leiðrétting á lánum íslenskra heimila „hefðit átt að gerast fyrir mörgum árum síðan," sagði Sigmundur.

Þá sagði hann jafnframt að við því hefði mátt búast að fylgið myndi dragast saman eftir snarpa uppsveiflu, en hann elti ekki við skoðanakannanir eins og sumir aðrir stjórnmálamenn. Framsóknarflokkurinn fylgdi sinni framtíðarsýn og hefði ekki sérstakar áhyggjur af minnkandi fylgi eftir kosningar.

Býst við rannsókn í öðrum lekamálum

Aðspurður segir Sigmundur að hann telji sig ekki munu verða dómsmálaráðherra út kjörtímabilið. Hvað ummæli um að rannsóknaraðilar horfi á lekamál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum dómsmálaráðherra, sem fordæmi hvað rannsókn og saksókn varði sagði Sigmundur: „Enda tók ég það skýrt fram að auðvitað hef ég ekkert með það að gera hvort eða hvernig mál eru rannsökuð. Það er grundvallaratriði í réttarríki eins og okkar að það eigi allir að fá sömu meðferð við sömu aðstæður.“

Leki á gögnum Samkeppniseftirlitsins til fréttastofu RÚV sé ekki minna að alvarleika. „Þetta er augljóslega ekki minna mál, sem nú er komið upp og í rauninni hafa komið önnur lekamál upp líka. Skólastjóri Hraðbrautar held ég að hafi kært svoleiðis að það er búið að búa til fordæmi með þessu lekamáli [Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innsk. blm.] sem að menn hljóta að líta til í framhaldinu," sagði forsætisráðherra.

Ætlar ekki að tala við lögreglustjóra

Forsætisráðherra segist ekki ætla að ræða við lögreglustjóra í tengslum við leka Samkeppniseftirlitsins til fréttastofu RÚV eða önnur lekamál. Hinsvegar hafi hann skilið að Hanna Birna skuli hafa viljað spyrja lögreglustjóra út í málið, enda mjög umfangsmikil rannsókn og íþyngjandi fyrir starfsfólk ráðuneytisins sem ekki ætti sér fordæmi.

„Hinsvegar skil ég mjög vel að hún skul við þessar aðstæður þegar farið er út í svona stóra rannsókn, í fyrsta skipti sem svona er gert í svona máli, skuli vilja leita upplýsinga um það og spyrja lögreglustjóra," sagði Sigmundur.