*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Fólk 7. febrúar 2020 13:52

Sigríður Theódóra fær stöðuhækkun

Viðskiptastjóri Brandenburg, Sigríður Theódóra Pétursdóttir hefur verið ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri.

Ritstjórn
Sigríður Theódóra Pétursdóttir hefur verið viðskiptastjóri Brandenburg síðustu sex ár og jafnframt setið í framkvæmdastjórn félagsins, en nú tekur hún við sem aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins.
Aðsend mynd

Sigríður Theódóra Pétursdóttir hefur verið ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Brandenburg. Sigríður útskrifaðist með BA próf í íslensku og MA gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Þá lauk hún sérhæfðu meistaraprófi í markaðslegri stjórnun og samskiptum frá Toulouse Business School.

Sigríður hefur starfað sem viðskiptastjóri á Brandenburg í um 6 ár ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn stofunnar síðustu ár. Hún hefur unnið við stefnumótun og markaðsráðgjöf fyrir mörg af helstu vörumerkjum landsins, á borð við Nova, Íslandsbanka, Sorpu og Krabbameinsfélagið.

„Þetta er mikill heiður og skemmtileg áskorun. Það eru spennandi tímar núna á síbreytilegum auglýsingamarkaði og mikilvægt að Brandenburg verði áfram leiðandi á þeim markaði," segir Sigríður Theódóra.

Brandenburg auglýsingastofa var stofnuð árið 2012 og eru starfsmenn um þrjátíu. Fókus á árangursdrifnar hugmyndir og uppbyggingu vörumerkja hefur skilað Brandenburg fjölda verðlauna auk þess sem hún hefur verið kosin auglýsingastofa ársins síðustu 3 árin af íslensku markaðsfólki.

„Það eru stór og krefjandi verkefni framundan og styrkur fyrir Brandenburg að hafa hana í framlínunni hjá okkur," segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburgar um Sigríði Theódóru.

„Hún býr yfir mikilli reynslu og hefur tekist á við stór og krefjandi verkefni og náð miklum árangri fyrir marga af okkar stærstu viðskiptavini. Þetta er því eðlilegt skref fyrir hana og fyrirtækið í heild.“