Fyrsta stóra ákæran vegna markaðsmisnotkunar fyrir bankahrun hefur verið gefin út, en hún snýr að hinu svokallaða Al-Thani máli, þegar Kaupþing lánaði samnefndnum sjeik frá Katar fyrir kaupum á 5,01% hlut í bankanum. Fyrri ákærur tengdar hruninu hafa lagt megináherslu á umboðssvik, eða innherjasvik í tilviki Baldurs Guðlaugssonar. Sjóðsstjóri og miðlari hjá Kaupþingi voru svo dæmdir fyrir markaðsmisnotkun í tengslum við viðskipti með bréf Exista.

Vísir segir í frétt sinni að þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í London, og Ólafur Ólafsson, annar stærsti hluthafi Kaupþings, séu hinir ákærðu í málinu.

Ólafur Þór Hauksson, Sérstakur saksóknari, vildi ekki gefa upp nöfn hinna ákærðu þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum. Segir í frétt Vísis að Hreiðar Már og Sigurður séu ákærðir fyrir umboðssvik, Magnús fyrir hlutdeild í umboðssvikum, Ólafur fyrir hlutdeild í umboðssvikum, en til vara fyrir hylmingu og peningaþvætti. Allir eru þeir svo fjórir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.