„Við hvaða veruleikafirringu búa þingmenn? Ætlum við ekki að reyna að klára eitthvað?“ spurði Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og barði í ræðustól Alþingis í dag. Hann var harðorður í garð þingmanna í erindi sínu og lagði ríka áherslu á að af þeim málum sem eru á dagskrá þingsins í dag fjalli engin um skuldamál heimilanna og tvö um atvinnumál. Miðað við dagskrána og umræðuna nú stefnir í að þingfundir verði með svipuðu sniði út vikuna.

Þingfundur hófst á Alþingi klukkan 10 í morgun með óundirbúnum fyrirspurnartíma. Að honum loknum tóku við umræður m.a. um störf þingsins, dagskrá Alþingis og lengd þingfunda. Umræðunum lauk um stundarfjórðungi yfir 11.

Þingmenn skiptust nokkuð í lið eftir því hvort þeir eiga sæti í stjórnarflokkum eða ekki. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði m.a. stjórnarandstæðinga ósvífna í málþófi sínu. „Hann móast við. Dagsskipunin er þannig að samþykkja helst ekki neitt. Þetta hefur verið viðtekin regla árum saman,“ sagði hún og bað menn að hætta slíku.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, vísaði fullyrðingum Álfheiðar á bug. Hún sagði mönnum fallast hendur enda líti svo út fyrir að þingmenn í stjórnarandstöðu vinni aldrei með stjórnarliðum. „Við höfum í sameiningu komið í gegnum þingið góðum málum. En sé þetta yfirlýsing um að sá friður sé rofinn þá er það leitt af Álfheiði Ingadóttur,“ sagði hún.