Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, hefur verið kjörinn nýr formaður Framsóknarflokksins og mun því leiða flokkinn í næstu kosningum. Formannskjör fór fram á flokksþingi Framsóknar í Háskólabíó rétt í þessu og þar hafði Sigurður Ingi betur gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sitjandi formanni og fyrrverandi forsætisráðherra.

Ekki munaði mjög miklu á Sigmundi og Sigurði Inga. Sigmundur fékk 329 atkvæði en Sigurður Ingi 370 af 702 gildum atkvæðum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir fékk 3 atkvæði. Þrátt fyrir að Sigmundur Davíð virðist enn njóta umtalsverðs stuðnings innan flokksins virðist sem fleiri flokksmenn hafi kosið breytingu.

Sigmundur Davíð þurfti að segja af sér sem forsætisráðherra eftir að fjallað var um tengsl hans við aflandsfélagið Wintris í örlagaríkum þætti Kastljóss þann 3. apríl síðastliðinn. Ný ríkisstjórn var mynduð undir forystu Sigurðar Inga en Sigmundur tók sér nokkurra vikna frí í kjölfar hins svokallaða Panama-hneykslis áður en hann sneri aftur á þing.

Frá því að hann sneri aftur hefur Sigmundur Davíð verið duglegur að halda því fram að hann hafi orðið fyrir persónulegri árás og neitar því að hafa gert nokkuð rangt. Taldi hann sig best til þess fallinn að leiða Framsóknarflokkinn áfram og var sú ákvörðun hans um að gefa áframhaldandi kost á sér sem formaður afar umdeild.

Svo fór að Sigurður Ingi ákvað að bjóða sig fram gegn Sigmundi eftir að hafa að eigin sögn fengið fjölda áskoranna frá flokksmönnum. Sigmundur Davíð lýsti yfir vonbrigðum með ákvörðun Sigurðar Inga og gaf sterklega í skyn að sá síðarnefndi hefði svikið loforð um að bjóða sig aldrei fram gegn honum.

Sigurður Ingi lagði mikla áherslu á að mikilvægt væri fyrir flokkinn að endurheimta það traust sem tapaðist í kjölfar Panama-hneykslisins og taldi hann æskilegt að skipta um formann í þeim efnum. Nú eru formannsskiptin orðin að veruleika og forvitnilegt verður að fylgjast með framhaldinu.