Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur stefnt íslenska ríkinu vegna skattlagningar á kauprétti hans hjá Kaupþingi fyrir hrun. Greint er frá þessu í Markaðnum á Fréttablaðinu .

Þar kemur fram að Sigurður telji að kaupréttirnir sem hann nýtti sér hafi verið skattskyldir í Bretlandi þar sem hann var búsettur og hann hafi greitt það sem honum bar skylda til þar í landi. Íslensk skattayfirvöld féllust hins vegar ekki á það.

Sigurður keypti 1.624 þúsund hluti árið 2006 og 812 þúsund hluti árin 2007 og 2008. Ríkisskattstjóri segir skattstofn vegna kaupréttanna nema 1,6 milljörðum króna, en embættið bætti einnig við 25% álagi þar sem Sigurður gerði ekki grein fyrir tekjunum hér á landi. Samanlagt nemur skattlagningin því tveimur milljörðum króna.