Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson hefur verið ráðinn svæðisstjóri Arion banka á Vesturlandi. Hann tekur við starfinu af Eyjólfi Vilberg Gunnarssyni sem hefur tekið við sem forstöðumaður bíla- og tækjafjármögnunar Arion banka. Sigurgeir Sindri mun hefja störf hjá bankanum 1. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Sigurgeir Sindri hefur verið starfandi formaður Bændasamtaka Íslands frá árinu 2013 ásamt því að reka bú sitt að Bakkakoti í Borgarbyggð. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum um landbúnað og matvælaframleiðslu. Má þar nefna verðlagsnefnd búvara, framkvæmdanefnd búvörusamninga, stjórn Matís ohf. og formennsku í Landssamtökum sauðfjárbænda. Einnig hefur Sigurgeir Sindri verið stjórnarformaður Hótels Sögu og í stjórn Bændahallarinnar ehf.

Sigurgeir Sindri er búfræðingur að mennt, hefur stundað nám í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst og m.a. starfað sem stundakennari við bændadeild Landbúnaðarháskóla Íslands.