Dagblaðið-Vísir útgáfufélag ehf. hefur í dag keypt útgáfu DV samkvæmt kaupsamningi við 365 miðla hf. Í tilkynningu frá nýjum eiganda kemur fram að fyrst um sinn mun DV koma út í óbreyttri mynd. Útgáfudögum verður fjölgað á næsta ári. Engum starfsmönnum verður sagt upp hjá DV vegna eigendaskiptanna.

Eigendur Dagblaðsins-Vísis útgáfufélags ehf. eru Hjálmur ehf. (49%), 365 miðlar hf. (40%), Janus Sigurjónsson og Sigurjón M. Egilsson. Hjálmur ehf. er að öllu leyti í eigu Baugs Group hf.

Sigurjón M. Egilsson hefur verið ráðinn ritstjóri DV.

Stjórnarformaður útgáfufélagsins er Hreinn Loftsson, en hann er einnig stjórnarformaður Hjálms ehf. Með honum í stjórn eru Auðbjörg Friðgeirsdóttir og Sverrir Arngrímsson. Framkvæmdastjóri félagsins verður Hjálmar Blöndal segir í tilkynningunni.