Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, þingmaðurinn Guðlaugur Þ. Þórðarson og tveir aðrir þurfa ekki að bera vitni í máli ríkissaksóknara á hendur Gunnari Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitisins. Þetta er staðfesting á úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrr í mánuðinum, sem hafnaði þeirri kröfu verjanda Gunnars að leiða fjórmenningana fyrir dóminn. Dómarar telja framburð þeirra ekki hafa þýingu fyrir úrlausn máls Gunnars.

Gunnar var rekinn úr starfi sem forstjóri Fjármálaeftirltsins fyrir rétt rúmu ári og var hann síðan ákærður í fyrrasumar fyrir brota á bankaleynd með því að koma upplýsingum um fjármál Guðlaugs í gegnum aðra aðila til DV.

Í dómi Hæstaréttar í dag segir orðrétt:

„Krafa varnaraðila er meðal annars studd þeim rökum að framburður umræddra vitna getið verið til stuðnings þeirri málsástæðu að almannahagsmunir hafi réttlætt það að ætlaðri þagnarskyldu hans yrði vikið til hliðar. Úr því að varnaraðili taldi að viðskipti þau sem vísar er til í ákæru hafi falið í sér refsiverða háttsemi voru eðlileg viðbrögð af hans hálfu að kæra þá háttsemi til viðeigandi stjórnvalds sem hann og gerði. Slíkur grunur gat hins vegar ekki réttlætt að varnaraðili beitti fyrir sér að trúnaðarupplýsingum um viðskiptin yrði komið á framfæri við fjölmiðla eins og honum er gefið að sök. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar hefur varnaraðili hvorki fært viðhlítandi rök fyrir því að framburður vitnanna geti haft þýðingu við úrlausn um sekt hans eða sýknu í máli þessu né heldur við ákvörðun refsingar ef á reyndi.“