Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og þáverandi efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, segir að Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans hafi tjáð sér sunnudagskvöldið 5. október sl. að bankinn hefði gert samning við breska fjármálaeftirlitið um flýtimeðferð vegna Icesave-reikninganna gegn 200 milljóna punda greiðslu fyrir ákveðinn tíma.

Landsbankamenn og þar með Björgólfur Thor Björgólfsson hafa haldið því fram að þeir hafi óskað eftir 200 milljóna punda fyrirgreiðslu frá íslenskum stjórnvöldum helgina fyrir setningu neyðarlaganna svo hægt yrði á fimm dögum að færa Icesave undir breska lögsögu. Stjórnvöld hafi hins vegar ekki orðið við þeirri beiðni.

„Hann sagði mér þetta seint á sunnudagskvöldi og um þrjú leytið um nóttina vorum við í sambandi og ég spurði hvort þetta hefði gengið eftir. Hann sagðist þá ekki vera búinn að fá svar," segir Tryggvi Þór í samtali við Viðskiptablaðið.

Tryggvi Þór segir að hann hafi litið svo á að þetta væri mál milli Seðlabankans og Landsbankans. „Ég var ekki að beita mér í þessu enda stóð ég í þeirri meiningu að þetta væri í farvegi milli [bankanna]."

Tryggvi Þór segir enn fremur að hann hafi ekki upplýst Geir H. Haarde forsætisráðherra um þetta um nóttina. „Hann [Sigurjón] sagði mér þetta í framhjáhlaupi þegar við vorum að tala um aðra hluti."

Hvorki Seðlabankinn né þáverandi fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, auk forsætisráðherra, segjast kannast við það að hafa fengið umrædda beiðni frá Landsbankamönnum. Kastljós greindi einnig nýverið frá því að breska fjármálaeftirlitið kannaðist heldur ekki við að samkomulag hefði verið gert í málinu.