Stjórnarformaður Kaupþings, Sigurður Einarsson, segir í viðtali við Sunday Times að staða bankans sé sterk og að fjárfestar þurfi ekki að hafa áhyggjur. Hann segir að sveiflur í gengi krónunnar valdi því að Kaupþing þurfi að skoða hvort hún sé rétti gjaldmiðillinn fyrir bankann.

Sigurður segir í viðtali við blaðið að takmark Kaupþings með útþenslu í Evrópu sé að dreifa eignum og tekjum. Þetta hafi minnkað áhættu í rekstri bankans og takmarkað sveiflur í tekjum. "Um 70% af tekjum okkar koma frá öðrum löndum en Íslandi og við berum núna titilinn norður-evrópskur banki með rentu," segir hann.

"Sveiflur í gengi krónunnar að undanförnu þýða að við verðum að skoða hvort hún sé óhentugur gjaldmiðill fyrir banka eins og Kaupþing. Það þarf að ræða alvarlega hvort samlaga eigi Ísland Evrópu betur og gera íslensku krónuna úrelta," segir hann við Sunday Times.