Sigurður Helgason, forstjóri Icelandair, var kjörinn í stjórn IATA (International Air Transport Association), alþjóðasambands flugfélaga, á ársfundi samtakanna sem haldinn var í Singapore 8. júní sl. Alls eru um 270 flugfélög í IATA og þar á meðal eru öll þau stærstu í öllum heimsálfum.

Flugfélög innan IATA annast um 98% af alþjóðlegu áætlunarflugi í heiminum. Hlutverk IATA er að vera í forsvari fyrir, leiða og þjónusta alþjóðlega flugstarfsemi. Icelandair hefur verið aðili að IATA frá 1950.

Á fundinum í Singapore var Jean-Cyril Spinetta, forstjóri Air France
kjörinn formaður stjórnar IATA en fulltrúar Evrópu í stjórninni auk hans og
Sigurðar eru forstjórar Austrian Airlines, Aeroflot, British Airways,
Lufthansa, Finnair, Iberia, KLM og SAS.