Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að eitt af meginstarfsemi hins opinbera sé að gæta að öryggi borgaranna og löggæslu, bæði á landi og sjó.

Þess vegna valdi það miklu vonbrigðum að heyra af uppsögnum innan Landhelgisgæslunnar en stofnunin sé ein af meginstoðum í öryggisneti þjóðarinnar, sérstaklega þegar hugað er að öryggi sjómanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sigurði Kára í dag í tilefni nýlegra frétta af uppsögnum þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæslunni.

„Hætta er á því, að með uppsögnum þyrluflugmanna skerðist björgunargeta Landhelgisgæslunnar,“ segir Sigurður Kári.

„Sé ekki haldið úti tvöfaldri vakt þyrluáhafna, kann þyrluflugmaður í útkalli að hugsa sig tvisvar um, áður en lagt er í leiðangur af ótta um öryggi eigin áhafnar.“

Hann segir að i tíð Bandaríkjahers hér á landi hafi þyrlur hans í raun alltaf á bakvakt í þágu þyrlna Landhelgisgæslunnar. Frá hausti 2006 hafi íslenska ríkið séð til þess, að bakvaktarþyrlur í þjónustu þess kæmu í stað hinna bandarísku. Nú kunni sá tími að vera á enda runninn.

„Það er með öllu óásættanlegt að öryggi sjómanna sé teflt í hættu með þessu móti,“ segir Sigurður Kári og bætir við að hafa þurfi í huga að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinni einnig öðrum bráðnauðsynlegum verkefnum, til að mynda löggæslu og eftirliti á hafi úti svo og sjúkraflutningum á landi svo dæmi séu tekin.

„Ég efast ekki um að yfirmenn Landhelgisgæslunnar muni leita allra leiða við að skipuleggja rekstur stofnunarinnar þannig að viðbragðsstaða þyrlusveitarinnar verði óbreytt en það kann engu að síður reynast erfitt vegna fjárskorts,“ segir Sigurður Kári.

Hann segir að fjárskortinn megi rekja til til þeirrar staðreyndar, að gengi krónunnar hafi lækkað og leigugreiðslur til erlendra eigenda þyrlna hækkað í samræmi við það en eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins hafa gengisbreytingar valdið um 500 milljón króna hækkun útgjalda hjá Landhelgisgæslunnar og innlendar vísitölubreytingar um 100 milljón króna hækkun eða samtals um 600 milljónir króna.

„Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að hið opinbera þarf að taka til í sínum rekstri. Þegar um öryggismál er að ræða er auðvelt að forgangsraða í þágu þeirra öryggismála, sem Landhelgisgæslan sinnir með því að fela henni þau verkefni, sem Varnarmálastofnun sinnir og kosta hátt á annan milljarð hjá þeirri stofnun,“ segir Sigurður Kári.

„Ég er sannfærður um, að unnt er að nýta þessa miklu fjármuni betur og þar með styrkja innviði Landhelgisgæslunnar. Það er í raun fráleitt, að fyrstu uppsagnir hjá íslenskri stofnun, sem sinnir öryggismálum skuli vera hjá Landhelgisgæslu Íslands. Það sýnir, að ríkisstjórnin hefur á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum misst sjónar á því, hvað skiptir mestu og hvað má bíða.“