Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja (SÍL) saka stjónvöld um áhuga- og aðgerðarleysi í tilkynningu frá samtökunum. Hjartavernd og UVS, sem eru meðal stærstu félaga í SÍL, þurftu nú um mánaðarmótin að segja tugum starfmanna sinna upp störfum, segir í tilkynningunni.

SÍL segir undanfarin ár hafa verið erfið fyrir íslensk líftæknifyrirtæki, fyrst eftir að netbólan sprakk og síðar vegna óhagstæðs rekstraumhverfis og sterkrar krónu sem vegur þungt vegna mikils innlends kostnaðar og tekna í erlendri mynt.

?Þegar rofa tekur til á erlendum mörkuðum er því enn hörmulegra að íslensk líftæknifyrirtæki, skuli sérstaklega barin niður vegna óhagstæðs rekstrarumhverfis og áhuga- og aðgerðaleysis stjórnvalda," segir í tilkynningunni.

SÍL bendir á aðgerðir til að jafna samkeppnisstöðuna, svo sem endurgreiðslukerfi vegna kostnaðar við rannsóknarverkefni. ?Til þessa ráðs er hægt að grípa til strax og vega þannig á móti sterkri krónu. Þá má enn minna á að einn mikilvægasti stuðningur, sem stjórnvöld geta veitt við uppbyggingu hátækni¬fyrirtækja, er að kaupa af þeim vörur og þjónustu, í stað þess að leggja stein í götu þeirra með ríkisrekinni samkeppni á mörgum sviðum."