Þeir sem hafa skotið fé undan skatti með því að kaupa í sjóðum sem eru í vörslu fjármálafyrirtækja í furstadæminu Liechtenstein kunna að finna fyrir kastljósi fleiri ríkisstjórna á næstunni.

Þýsk stjórnvöld hafa boðið fleiri ríkisstjórnum aðgang að þeim gögnum sem þeir hafa undir höndum um viðskiptavini fjármálastofnanna furstadæmisins og kemur fram í breska blaðinu Financial Times að stjórnvöld á Norðurlöndunum hafi sýnt tilboðinu áhuga.

Tilboð stjórnavalda í Berlín þýðir að umfang rannsóknarinnar sem hófst í Þýskalandi fyrir tveimur vikum kunni að aukast enn frekar. Rannsóknin hófst í kjölfar þess að þýsk leyni- og öryggisyfirvöld (þ. Bundesnachrichtendienst) borguðu fyrrum starfsmanni LGT bankans í Liechtenstein 4,23 milljónir evra fyrir upplýsingar um 1,400 eigendur leynisjóða sem eru í vörslu bankans.

Fram kemur í Financial Times að sexhundruð þeirra séu þýskir ríkisborgarar. Sökum bankaleyndar í furstadæminu geta menn falið skattstofna með því að færa þá til Liechtenstein. Þýsk stjórnvöld áætla að rannsóknin leiði til þess að hundruð millljóna evra verði endurheimt í ríkissjóð landsins.

Fleiri stjórnvöld hugsa sér gott til glóðarinnar en bæði bresk og bandarísk stjórnvöld eru sögð rannsaka málið eftir að hafa fengið gögnin með öðrum leiðum. David Hartnett, yfirmaður í Tollheimtu hennar hátignar, hefur sagt að stjórnvöld í Bretlandi geri ráð fyrir að endurheimta allt að hundrað milljónum sterlingspunda í skatttekjur.

Bloomberg-fréttaveitan segir að auk ofangreindra landa þá hafi stjórnvöld í Svíþjóða, Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi hafi gögnin undir höndum. Þýskir saksóknarar munu gera grein fyrir stöðu rannsóknarinnar síðar í dag.