Borgin Bangalore á Indlandi, sem oft er kölluð Silicon Valley þeirra Indverja, virðist vera að missa aðdráttarafl sitt sem hagstætt aðsetur hugbúnaðarfyrirtækja. Samkvæmt frétt Aljazeera er ástæðan að stærstum hluta sú að innri uppbygging þjónustu á staðnum hefur ekki náð að fylgja eftir öðrum vexti. Hlýtur þetta að vera athyglisvert í ljósi hugmynda um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Borgin sem staðsett er í suðurhluta Indlands hefur verið þjóðsagnardæmi um hraða hátækniuppbyggingu þar í landi og er oft talin höfuðborg upplýsingatækninnar í Suðuaustur-Asíu. Nú horfa menn fram á hrun, en nærri 1.200 upplýsingatæknifyrirtæki hafa haft þar aðsetur og standa þau undir 35% af öllum hugbúnaðarútflutningi Indverja sem nema mun um 16 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári.

Á hápunkti upplýsingatæknibyltingarinnar fyrir nokkrum árum var Koramangala, sem er í úthverfi Bangalore, talin vera með mesta þéttleika á hvern ferkílómetra af hugbúnaðarfyrirtækjum á fjarskiptasviði í heiminum. Þar hafa m.a. verið staðsett fyrirtæki á borð við Infosys og Wipro, sem eru tvö af stærstu hugbúnaðarfyrirtækjum heims.Yfir 200 þúsund manns hafa beina atvinnu af starfsemi upplýsingatæknifyrirtækjanna í borginni og rannsóknastarfsemi þeim tengdum. Allt virðist þetta nú vera að riða til falls og fyrirtæki munu þegar vera farin að hugsa sér til hreyfings.

Svo virðist sem borgaryfirvöld í Bangalore hafi vanmetið þörfina á uppbyggingu innri þjónustuþátta á svæðinu. Vegakerfið er sprungið, skortur er á nægu vatni, hótelrými og rafmagni.

Sagt er mjög áberandi að nær ómögulegt er lengur að fá sómasamlegt hótelherbergi í borginni nema með því að bóka með margra mánaða fyrirvara. Algengt er að rafmagn fari af borginni. Þá verða umferðaröngþveiti í yfirfullum götunum ef umferðin hefur þá ekki þegar stöðvast af völdum vatnselgs vegna þess að holræsakerfið hefur ekki undan að taka við rigningarvatninu. Mengun er líka sögð vaxandi vandamál.

Allt þetta veldur því að mörg fyrirtæki eru á förum, m.a. til nágrannaborgarinnar Hyderabad. Þá hefur stjórnarformaður Infosys sagt sig úr nefnd á vegum stjórnvalda sem ætlað var að skipuleggja uppbyggingu alþjóðaflugvallar við Bangalore. Samstarfsvettvangur tæknifyrirtækja (BFIT), þar sem fulltrúar 18 fjölþjóðafyrirtækja á borð við Texas Instruments, Philips, Novell, Synopsis, Hewlett-Packard og Motorola hafa setið, hafa hótað að sniðganga samninga sem fyrirtækin hafa gert um uppbyggingu upplýsingatækniiðnaðar á svæðinu í mótmælaskyni við vandræðaganginn.

En talið líklegt að öll þessi vandræði kunni að valda miklu bakslagi og hafa alvarleg áhrif á efnahag Indlands í framtíðinni.