Spyrja þarf símafyrirtækin hvers vegna þau semja ekki við Farice um netsamband í gegnum sæstreng í lengri tíma en til þriggja ára. Þetta segir Ómar Benediktsson, forstjóri Farice, sem rekur tvo af þremur sæstrengjunum sem tengja landið við umheiminn.

Farice sagði samningum upp við Símann og Vodafone um fjarskiptasamband við útlönd í lok júní án þess að ástæða hafi verið gefin upp á því. Síminn gerði svo samning til næstu þriggja ára í vikunni.

Netverjar spurðu Ómar á vefsíðunni Spyr.is m.a. að því í kjölfar undirritunar samnings Símans og Farice hvort það sé ekki slæmt ef stærstu viðskiptavinir fyrirtækisins geti varla ráðið við samninga og verð.

Ómar svaraði á móti:

„Hver segir að símafyrirtækin geti ekki borgað meira? Þeir borguðu meira fyrir 3-5 árum síðan.“

Ómar vísaði því hins vegar á bug að allt stefndi í að Farice þyrfti að hækka gjöld sín um 179%. Hann væri því hins vegar feginn ef reikningurinn hækkaði og benti á að fjárfesting Farice við að halda uppi góðu fjarskiptasambandi við útlönd kosti 20 milljarða króna. Borin von sé á að símafyrirtækin geti staðið undir því.

Þá var hann spurður að því hvers vegna símafyrirtækin semji í svo stuttan tíma, þ.e. þrjú ár. Því var Ómar sammála en benti á, að þeirri spurningu ættu símafyrirtækin sjálf að svara.

Þarf ekki að reyna að semja til lengri tíma en þriggja ára fyrst þjónustan byggir á að hafa netsamband til landsins?