Síminn og Vodafone hafa fallist á tilmæli talsmanns neytenda þess efnis að tilkynna framvegis öllum neytendum fyrirfram um verðhækkanir og aðrar breytingar á skilmálum, neytendum í óhag.

Fresturinn, sem neytendur eiga að hafa til þess að bregðast við, er einn mánuður. Þetta kemur fram á vefsíðu Talsmanns neytenda.

Talsmaður neytenda sendi fjarskiptafyrirtækjunum Símanum og Vodafone almenn tilmæli um að tilkynna neytendum framvegis persónulega og með mánaðarfyrirvara um hækkanir á verðskrá. Fram að þessu hafa slíkar breytingar aðeins verið kunngjörðar með fréttum og upplýsingum á vefsíðum fyrirtækjanna auk tilkynningar til Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS).

Tilefni tilmæla talsmanns neytenda er að fyrirtækin hafa frá áramótum breytt verðskrá sinni - til hækkunar - án þess að tilkynna neytendum hverjum og einum um breytinguna með bréfi, tölvuskeyti eða öðrum hætti - eins og talsmaður neytenda telur rétt að gera.