Ákvörðun hefur verið tekin um að starfsemi fjarskiptafélaganna Hive og Sko, sem nýlega voru sameinuð, verði framvegis rekin undir merkjum Tals. Í fréttatilkynningu frá Tal segir að fyrirtækið muni grundvalla starfsemi sína einvörðungu á þjónustu og umtalsverður sparnaður á sviði hvers kyns tækniþróunar geri félaginu kleift að bjóða heildarþjónustu, þ.e. farsíma, heimasíma og internet, að jafnaði á um 20-30% lægra verði en Síminn og Vodafone hafa gert til þessa.

Tal stefnir að því að hafa 20% hlutdeild á íslenska fjarskiptamarkaðnum innan þriggja ára og gerir jafnframt ráð fyrir því að innkoma félagsins leiði til aukinnar samkeppni á næstu misserum. Nafn Tals var lagt til hliðar við sameiningu Tals og Íslandssíma á sínum tíma, en var nýlega keypt aftur.

„Við vitum að Tal stendur ákaflega traustum fótum í vitund þjóðarinnar og hefur mikla skírskotun til frelsis og réttlætis í fjarskiptum. Það er ögrandi verkefni að starfa undir merkjum Tals og við munum leggja allt í sölurnar til þess að rísa undir þeim kröfum sem til okkar verða gerðar og þeim loforðum sem við gefum um verulegar verðlækkanir til íslenskra neytenda. Þetta er góð tímasetning til þess að hleypa af stokkunum nýrri þjónustu sem lækkar verð og leggur um leið sitt af mörkum í baráttunni gegn verðbólgunni sem þjóðin öll verður að taka þátt í“ sagði Hermann Jónasson, forstjóri Tals.