Síminn hefur ákveðið að breyta fyrirkomulagi á verðskrá fyrirtækisins vegna símtala erlendis, svokallaðri reikiverðskrá. Framvegis verður verðskráin endurskoðuð mánaðarlega og endurskoðuð verðskrá birt á heimasíðu félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Verðbreytingar munu endurspegla gengishreyfingar íslensku krónunnar og mun verðskráin því hreyfast með hreyfingum á gengi. Vegna þróunar á gengi krónunnar undanfarið er óhjákvæmilegt að kostnaður vegna símtala erlendis hækki.

„Með þessu fyrirkomulagi er verðskráin gegnsæ og aðgengileg auk þess sem tryggt er að viðskiptavinir njóta þess strax þegar gengi krónunnar styrkist," segir í tilkynningunni.

Reikiverðskrá Símans var síðast breytt 1. janúar sl. vegna EU reglugerðar og lækkaði verð símtala erlendis þá umtalsvert.

Breytingarnar nú eru ekki breytingar á verðskránni yfir í erlenda mynt, heldur er eingöngu verið að reikna raungengið, eins og það er á hverjum tíma, inn í verðskrána.

„Sem kunnugt er hafa miklar breytingar orðið á gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum undanfarna mánuði. Síminn greiðir fyrir aðkeypta þjónustu erlendra símafélaga í erlendri mynt og því verður ekki hjá því komist að gengisbreytingar komi fram í verði símtala í útlöndum,” segir í tilkynningunni.

Verðskráin mun miðast við gengi SDR (sérstök dráttarréttindi), 25. hvers mánaðar og taka breytingum 1. hvers mánaðar á eftir.