Hlutabréf Símans hækkuðu um 3,6% í dag, mest af félögum Kauphallarinnar, í meira en hálfs milljarðs króna veltu. Gengi fjarskiptafélagsins stóð í 11,4 krónum við lokun markaðarins. Dagslokagengi Símans fór hæst í 12,7 krónur í apríl síðastliðnum.

Sjá einnig: SKE samþykkir kaup Ardian á Mílu

Tilkynnt var fyrir opnun Kauphallarinnar í morgun að Samkeppniseftirlitið hefði samþykkt sölu Símans á Mílu til franska sjóðastýringafyrirtækisins með skilyrðum. Síminn og Ardian komust að samkomulagi um breytingar á kaupsamningnum, til hliðsjónar af skilyrðum eftirlitsins, sem fela í sér að heildarvirði viðskiptanna lækki um 3,5 milljarða króna, niður í 69,5 milljarða.

Icelandair hækkaði næst mest af félögum aðalmarkaðarins. Gengi flugfélagsins hækkaði um 2,6% í 730 milljóna veltu og endaði daginn í 2,0 krónum á hlut.

Þá hækkaði hlutabréfaverð Marels um 2,6% í 780 milljóna viðskiptum og stendur nú í 564 krónum. Gengi Marels hefur hækkað um 12% í mánuðinum.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuð um 0,6% í 1,7 milljarða viðskiptum. Gengi Arion Stóð í 178,5 krónum við lokun Kauphallarinnar.