Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um 0,34% í viðskiptum dagsins og stendur fyrir vikið í 3.018,73 stigum, en velta á aðalmarkaði kauphallarinnar nam 3,2 milljörðum króna.

Mest var velta með hlutabréf Símans sem jafnframt hækkuðu mest, um 6,27% í 927 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfanna stóð í sléttum 10 krónum á hlut við lok dags. Gengi hlutabréfa Iceland Seafood hækkaði næstmest, um 1,45%, og þá hækkaði gengi Sjóvár um 1,19%.

Næstmest var velta með bréf Arion banka en gengi þeirra hækkaði um 0,81% í 767,5 milljóna króna viðskiptum. Þá nam velta með bréf Iceland Seafood 556,6 milljónum króna.

Gengi Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 1,96% og stóð gengið í 1,5 krónum á hlut í lok dags. Þá lækkaði TM um 1,23% og Eik um 0,8%.

Afar rólegt var á skuldabréfamarkaði í dag en heildarvelta dagsins nam 663,7 milljónum króna.