Síminn hefur keypt öll hlutabréf í danska fjarskiptafyrirtækinu BusinessPhone A/S af Kærhøj ApS (100% í eigu Nils Palmqvist og Henrik Søndbjerg). Kaupin miðast við 1. september 2007 segir í frétt félagsins.

BusinessPhone var stofnað árið 1994 af Nils Palmqvist. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í fjarskiptaþjónustu til minni og meðalstórra fyrirtækja. Það er eitt af leiðandi fjarskiptafyrirtækjum í Danmörku. Viðskiptavinir eru um 1.500 með um 40.000 notendur.

BusinessPhone Group samanstendur af þremur fyrirtækjum:
? BusinessPhone A/S er með ráðgjöf á sviði fjarskipta.
? Prime Networks A/S er fjarskiptafyrirtækið, sem býður upp á allar tegundir fjarskipta fyrir fyrirtæki þær helstu eru fastlína, farsími og internet.
? CTI Billing Systems A/S sér meðal annars um sérsniðnar símakerfalausnir fyrir fyrirtæki.

Heildartekjur BusinessPhone Group árið 2006 voru 47.582 þúsund danskar krónur og EBITDA var 6.453 þúsund danskar krónur. Starfsmenn eru 15.

Eitt af lykilmarkmiðum Símans er að fylgja eftir útrás íslenskra fyrirtækja í Danmörku og Norður Evrópu og í þeim tilgangi hefur verið komið á fót skrifstofu í Danmörku sem Hreinn Jakobsson stýrir.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans segir í tilkynningu að hann sé mjög ánægður með kaupin og hefur hann mikla trú á að danska fyrirtækið sé góð viðbót við rekstur Símans.