Síminn átti lægsta tilboð í útboði Fjarskiptasjóðs en tilboð voru opnuð í húsnæði Ríkiskaupa fyrr í dag.

Tilboð Símans nam 379 milljónum króna en Síminn átti aðild að þremur tilboðum á bilinu 379 milljónir króna til 5 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Þar kemur fram að tilboð Símans gerir ráð fyrir að uppbyggingin taki 12 mánuði og gerir ráð fyrir að nýta 3G tæknina við uppbygginguna.

„Það þýðir að á viðkomandi stöðum mun nást 3G farsímasamband auk háhraðanets, verði samið við Símann á grundvelli tilboðsins,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að uppbyggingin sem Síminn leggur til mun því nýtast öllum þeim sem eru á ferð á viðkomandi svæðum, auk þeirra 1.118 lögbýla sem m.a. eru á svæðunum sem um ræðir.

„Við erum mjög ánægð að sjá að við bjóðum best í þessu mikilvæga útboði sem skiptir fjölmörg heimili miklu máli,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans í tilkynningunni.

„Síminn hefur undanfarið byggt upp langdrægt 3G samband víðsvegar um landið og sú uppbygging gerir okkur kleift að ná fram mikilli hagkvæmni við alla viðbótaruppbyggingu. Auk þess að bjóða lægsta verðið, bjóðum við hraða uppbyggingu og mikinn gagnaflutningshraða sem hvort tveggja skiptir neytendur miklu máli.“

Þá kemur fram að markmið útboðsins er, sbr. Fjarskiptaáætlun 2005-2010, að allir landsmenn, sem þess óska, hafi aðgang að háhraðanettengingum.

Tilboðin verða metin úr frá m.a. hraða við uppbygginguna, gagnaflutningshraða auk tilboðsfjárhæðar.