„Þessi bransi klikkar oft á því að menn fara of geyst í upphafi og verja umtalsverðu fjármagni í að opna allt of flottan stað. Við hugsuðum það mjög vandlega hvernig við myndum haga þessum rekstri og sinna honum. Við höfum frá upphafi gætt vel að því að vera með allt á tæru,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson annar eiganda Hamborgarafabrikkunnar.

Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes hlutu Markaðsverðlaun Ímark fyrir árið 2010 og margir hafa haft á orði að undirbúningurinn að opnun Fabrikkunnar hafi verið ein best heppnaða markaðsherferð seinni ára. Blaðamaður rifjar upp að meðal annars hafi verið gerður sérstakur sjónvarpsþáttur um undirbúninginn sem sýndur var á besta tíma á Stöð 2. Sigmar svarar því til að Stöð 2 hafi um leið fengið frábært sjónvarpsefni til að sýna á besta tíma og hlær við.

„Þetta var þó ekki hluti af útpældri markaðsherferð eins og margir halda,“ segir Jóhannes.

„Við vorum í raun og veru með ófrískar konur, vorum að venda kvæði okkar í kross og taka þessa áhættu með því að fara út í veitingarekstur og Saga film sýndi því áhuga. Stöð 2 keypti þáttinn og við vorum í raun bara venjulegir launamenn á meðan eins og með alla aðra sjónvarpsþætti.“

Þetta leit samt út eins og þaulskipulögð markaðsherferð, skýtur blaðamaður inn í.

„Það má vel vera og það er í raun ekkert að því enda voru viðbrögðin þannig,“ segir Jóhannes.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.