Kristján Kristjánsson rekstrarstjóri hjá Árekstur.is, segir að sparnaður í hálkuvörnum kemur fram í fjölda árekstra en í gær þurftu starfsmenn félagsins að sinna alls 50 útköllum, bæði litlum og stórum að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Þegar göturnar eru hvorki salt- né sandbornar gefur hálkan ekkert eftir,“ segir Kristján sem segir að ekkert útkallanna hafi verið á aðalgötum enda hafi þær verið hálkuvarðar en annað gegni um minni götur og húsagötur.

„Engu breytir á hvernig dekkjum bílarnir eru eða þótt hægt sé farið. Ökumenn einfaldlega missa stjórn á bílunum og ráða ekki við aðstæður. Í gær gerðist það til dæmis að bíll á ferð lenti á öðrum og saman runnu þeir tveir á kyrrstæðan bíl.“

Nefnir Kristján að í einni götu hafi til dæmis orðið þrjú umferðarslys í gær, en jafnframt má búast við að vandamál geti komið upp í dag vegna fljúgandi hálku í höfuðborginni, fyrir bæði gangandi og akandi vegfarendur.