„Það eru allir sveittir við að ganga frá texta fyrir lokun dags á morgun," segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, en stefnt er að því að stjórnvöld og skilanefndin gangi þá endanlega frá samningi um uppgjör milli gamla og nýja bankans, þ.e.a.s. Glitnis og Íslandsbanka.

Árni segist bjartsýnn á að það takist að ljúka málinu á morgun.

Eftir því sem næst verður komist er við það miðað að Glitni, að undangengnu samráði við kröfuhafa, gefist kostur á að kaupa nær alla hluti í Íslandsbanka.

Sambærilegt samkomulag stjórnvalda og skilanefndar Kaupþings var undirritað 4. september en Fjármálaeftirlitið veitti þá skilanefnd Gltnis og fjármálaráðuneytinu frest til loka þessarar viku til að ljúka fjármögnun Íslandsbanka og gera upp eignir og skuldir Glitnis til nýja bankans.