Hilmar Bragi Janusson, forstjóri siglfirska líftæknifyrirtækisins Genis, segir fyrirtækið komið að þeim tímapunkti að rannsóknir sem staðið hafi um langa hríð fari að skila áþreifanlegum verðmætum.

„Við erum að raungera þau verðmæti sem búa í áratuga fjárfestingu við rannsóknir sem búið er að fjármagna að megninu til með einkafé sem er óvenjulegt á Íslandi. Nú er komið að því að búa til verðmæti og fjárstreymi úr þessum niðurstöðum,“ segir Hilmar. Ríflega 30 manns starfa hjá félaginu í dag og hefur að stórum hluta verið fjármagnað af Róbert Guðfinnssyni fjárfesti.

Tekjur geti numið sjö milljörðum Stjórnendur Genis sjá fram á að tekjur félagsins margfaldist á næstu árum og geti numið nálægt sjö milljörðum króna innan þriggja ára. Félagið vinnur að 500 milljóna til eins milljarðs króna hlutafjáraukningu í samstarfi við GAMMA og horfir bæði til innlendra og erlendra fjárfesta.

Genis setti Benecta, fyrstu vöru fyrirtækisins, á markað í Bretlandi á síðasta ári og er hún á leið á markað í Þýskalandi síðar á árinu. Tekjur félagsins á síðasta ári námu um 45 milljónum króna en verða nálægt 300 milljónum króna á þessu ári og ná milljarði króna á því næsta gangi áætlanir félagsins eftir. „Við ætlum að halda áfram með Benecta og koma svokölluðum lyfjabæti á markað um allan heim og halda utan sjálf utan um sölu og markaðsmálin,“ segir Hilmar. Genis stefnir á að skila umtalsverðum rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBITDA) frá og með árinu 2020. Þá geti vöruframlegð félagsins orðið allt að 80% á næstu árum. Vöxturinn byggir á sókn á nýjum mörkuð- um í Evrópu og Norður-Ameríku. „Við væntum þess að fjárfestarnir skilji það að tækifærið er tilbúið,“ segir Hilmar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .