Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins og framkvæmdastjóri Öskju, spáir því að á næstu tíu árum verði þróunin í bílgreininni meiri en hún hefur verið undanfarin fimmtíu ár. „Ég sé fyrir mér að eftir sex til átta ár verði stór hluti þeirra bíla sem við seljum tvíorkubílar, knúnir áfram af rafmagni og hefðbundnu eldsneyti. Rafbílar munu líka ryðja sér til rúms í meira mæli á næstu árum og ég tel að forsendur á Íslandi séu mjög góðar fyrir rekstur slíkra bíla. Síðan fleygir annarri tækni fram eins og til dæmis hvernig bílar eiga samskipti við hver annan og umhverfið.“

Hann segir bíla í dag þegar byrjaða að tala saman. „Til dæmis eru vörubílar sem aka í lest farnir að hafa samskipti hver við annan. Ef fremsti bíllinn þarf að hægja á sér lætur hann hina bílana vita, sem sjálfkrafa fara að undirbúa hemlun. Í dag geta bílar líka keyrt sjálfir. Í Þýskalandi hefur Mercedes Benz látið bíl keyra 150 kílómetra án ökumanns inni í borg. Bíllinn skynjar veginn, umferðarljós, gangbrautir og fleira. Það er því styttra í þetta en margir halda.“