Sjálfstæðisflokkurinn fær greiddar 74,6 milljónir króna og Framsóknarflokkurinn fær 68,5 milljónir króna frá íslenska ríkinu í ár. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um greiðslur ríkisins til stjórnmálasamtaka fyrir árið 2014 . Þessir stjórnmálaflokkar fengu flest atkvæði og fá því mesta pening úr ríkissjóði.

Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu eiga stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn á þing eða náð að lágmarki 2,5% atkvæða eiga rétt til framlaga. Það framlag skiptist hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í næstliðnum kosningum. Upphæðin er ákveðin á fjárlögum hverju sinni.

Samfylkingin fær 34,5 milljónir króna, VG fær 29,1 milljón, Björt framtíð fær 22,1 milljón og Píratar fá 16,7 milljónir. Önnur framboð fá minna.

Samtals fá stjórnmálasamtökin greitt 262 milljónir króna úr ríkissjóði í ár.

Hafa ber í huga að stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum í kosningum til Alþingis gátu sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði að loknum kosningum til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 3 milljóna króna. Sækja þarf um styrkinn innan þriggja mánaða eftir að kosningar fóru fram og greiðist af fyrrnefndum heimildum fjárlaga. Björt Framtíð, Flokkur heimilanna, Samfylkingin, Dögun og VG voru öll búin að fá styrkinn áður en frestur til þess rann út. Þrír flokkar fengu greiðsluna síðar.