Á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, í dag var tillaga stjórnar Varðar samþykkt um að viðhafa prófkjör í Reykjavík laugardaginn 24. nóvember næstkomandi vegna alþingiskosninga 2013.

Prófkjörið verður opið öllum flokksbundnum félögum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, bar upp tillögu á fundinum um að dagsetningu prófkjörsins yrði flýtt um viku og það haldið laugardaginn 17. nóvember. Rökin fyrir þeirri tillögur voru þau að fyrri dagsetningin, 24. nóvember, væri of nálægt prófatíma í háskólum og því myndi ungu fólki reynast erfitt að taka þátt í prófkjörinu. Sú tillaga var naumlega felld með 45 atkvæðum gegn 39. Prófkjörið verður því haldið laugardaginn 24. nóvember nk.