Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi samþykkti einróma í kvöld tillögu kjörnefndar þess efnis að viðhafa prófkjör í kjördæminu laugardaginn 10. nóvember næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum en framboðsfrestur verði gefinn til 19. október næstkomandi.

Suðvesturkjördæmi, sem er fjölmennasta kjördæmi landsins, er sem kunnugt er kjördæmi Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Gera má ráð fyrir að Bjarni sækist einn eftir fyrsta sæti á lista flokksins fyrir komandi alþingiskosninga í vor.

Í kosningunum vorið 2009 var Bjarni í efsta sæti listans. Flokkurinn hlaut fjóra þingmenn úr kjördæminu (og missti einn frá kosningunum vorið 2007). Fyrir utan Bjarna voru kjörin þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (sem var í 2. sæti listans), Ragnheiður Ríkharðsdóttir (3. sæti) og Jón Gunnarson (4. sæti).

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá mun Jón Gunnarsson sækjast eftir 2. sæti listans fyrir komandi kosningar. Þorgerður Katrín hefur enn ekki lýst því yfir hvort hún muni halda áfram þingmennsku og þá hvaða sæti hún muni sækjast eftir, en gera má fastlega ráð fyrir því að hún stefni áfram á 2. sæti listans. Þá er óljóst hvaða sæti Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun bjóða sig fram aftur, biður um en hún ku einnig vera að íhuga að biðja um 2. sæti á listanum.

Óli Björn Kárason var í 5. sæti listans í síðustu kosningum og því fyrsti varaþingmaður flokksins. Þar á eftir komu Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnafirði, og Víðir Smári Petersen, lögmaður, en öll hafa þau tekið sæti á þingi á núverandi kjörtímabili. Til gamans má geta þess að Víðir Smári er jafnframt yngsti þingmaður sem tekið hefur sæti á Alþingi frá upphafi.

Ekki er vitað hvað þessi þrjú munu gera en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er mikið þrýst á þau að gefa kost á sér aftur. Þá hefur einnig komið fram að Elín Hirst, fyrrv. fréttastjóri á RÚV, mun gefa kost á sér og þá hefur verið nokkuð um það rætt að Friðjón R. Friðjónsson, fyrrv. aðst.maður Bjarna Benediktssonar, hyggist einnig íhuga framboð.

Hvað önnur prófkjör varðar þá mun vera mikill þrýstingur á það innan flokksins að haldin verði prófkjör hvar víðast.