Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti rétt í þessu ályktun um endurreisn atvinnulífsins þar sem beðist er afsökunar á því sem miður fór í landsstjórninni undir forystu flokksins. Ályktunin var samþykkt mótatkvæðalaust.

Í ályktuninni segir meðal annars að rekja megi ýmsar ástæður falls bankanna til stjórnvalda; ríkisstjórnar, löggjafarvalds eða stofnana ríkisins. „Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn og löngum í forystuhlutverki á þessum mikla uppgangstíma og þegar áfallið varð. Af því leiðir að Sjálfstæðisflokkurinn ber óhjákvæmilega mikla ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru í landsstjórninni og hefði verið hægt að komast hjá."

Síðan segir: „Sjálfstæðisflokkurinn axlar þessa ábyrgð og biðst afsökunar á því sem miður fór en hann átti að gera betur."

Ályktunin var samþykkt í kjölfar umræðna um skýrslu endurreisnarnefndar flokksins undir forystu Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Umræðurnar voru ekki langar en í upphafi þeirra gerði Vilhjálmur grein fyrir störfum nefndarinnar og niðurstöðum hennar. Í máli fundarmanna kom meðal annars fram að sjálfstæðismenn ættu að standa fyrir það að lágmarka skattbyrði heimila og atvinnulífs. Í fyrrgreindri ályktun er hnykkt á því.

Víglundur Þorsteinsson sagði meðal annars í umræðunum að það færi ekki á  milli mála að „okkur urðu á veruleg mistök í framkvæmd svokallaðrar nýrrar peningamálastefnu Seðlabankans eftir lagabreytinguna 2001." Það hefði leitt til ofþenslu í íslensku hagkerfi.

Hann sagði enn fremur að sjálfstæðismenn hefðu fallið í þá freistni að nota talsvert af þenslugróðanum til að þenja út ríkisútgjöldin. Vaxtastefnupólitíkin, sem hefði verið glórulaus, væri þó höfuðpaurinn í því sem við hefðum mátt þola haustið 2008.