Sjálfstæðismenn hafa ekki tekið afstöðu til einstakra efnisatriða Seðlabankafrumvarpsins, sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðum á Alþingi í dag. Þeir vilja hins vegar, sagði hann, að vandað verði vel til verka verði gerðar breytingar á Seðlabankanum.

Nú fara fram umræður á Alþingi um breytingar á lögum um Seðlabankann. Þar er lagt til að Seðlabankastjórn verði lögð niður og að í staðinn verði fengin einn faglegur Seðlabankastjóri, skipaður að undangenginni auglýsingu. Þá er lagt til að innan bankans starfi sérstök peningamálastefnunefnd.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að í ljósi þess sem á undan væri gengið væri skiljanlegt að ný ríkisstjórn vildi endurskoða lögin um Seðlabanka Íslands.

Sjálf kvaðst Ragnheiður Elín vera þeirrar skoðunar að taka þyrfti allt fjármálakerfið til endurskoðunar. Læra þyrfti af því sem úrskeiðis hefði farið og marka stefnu til framtíðar. Hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn styddi, að sjálfsögðu, slíkt endurmat. Breytingarnar mættu þó ekki vera handahófskenndar.

Hún minnti á að síðasta ríkisstjórn hefði verið að vinna að breytingum á Seðlabankanum og að þar hefði verið til skoðunar að sameina bankann og Fjármálaeftirlitið. Erlendir sérfræðingar hefðu verið með málið til umfjöllunar og fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði einnig verið kallaður að því borði.