Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd Alþingis hafa sett fram harða gagnrýni á undirbúning og framsetningu frumvarps forsætisráðherra til breytinga á lögum um stjórnarráðið.

Þau Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal segja í nefndaráliti minnihlutans í allsherjarnefnd að eðlilegast sé að ríkisstjórnin tæki frumvarpið aftur inn á sitt borð og legði fram fullbúið frumvarp til breytinga á stjórnarráðslögunum.

„Markmið um sameiningu ráðuneyta í því skyni að efla stjórnsýsluna og draga úr kostnaði eru virðingarverð og í samræmi við afstöðu sjálfstæðismanna, en hins vegar er nauðsynlegt að ríkisstjórnin vinni heimavinnuna áður en frumvarp af þessum toga er lagt fram á þingi og afgreitt þar,“ segir í tilkynningu frá Birgi og Ólöfu sem send var fjölmiðlum.

Í nefndaráliti þeirra Birgis og Ólafar segir að ekkert samráð hafi verið haft við undirbúning frumvarpsins nema eftir atvikum milli ráðherra og nokkurra æðstu embættismanna ráðuneytanna. Þannig hafi hvorki verið um að ræða samráð við starfsmenn Stjórnarráðsins, hagsmunasamtök þeirra né aðra aðila sem hagsmuna hafa að gæta.

Þá hafi heldur ekkert verið um neitt pólitískt samráð að ræða við undirbúning frumvarpsins. Raunar hafi verið boðað að í framhaldi af samþykkt frumvarpsins verði efnt til samráðs um útfærslu breytinganna en reynslan veki ekki miklar vonir um að við það verði staðið.

„Vísast í þeim efnum til þess að við afgreiðslu Alþingis á breytingum á Stjórnarráðinu sumarið 2009 var því marglýst yfir að efnt yrði til víðtæks samráðs í framhaldinu og við framlagningu þessa frumvarps var sérstaklega tekið fram, m.a. í greinargerð, að sumarið yrði notað til samráðs. Við hvorugt hefur verið staðið,“ segir í fyrrnefndu nefndaráliti.

Sjá nefndarálitið í heild sinni.