Danska þróunar- og fasteignafélagið Sjælsø Gruppen var rekið með 856 millljóna danskra króna hagnaði eftir skatta í fyrra, jafngildi um 13,3 milljarða íslenskra króna, á móti 315 milljóna danskra króna hagnaði árið 2006 og hagnaðurinn hartnær þrefaldaðist því á milli ára.

Straumur Burðarás fjárfestingarbanki og Samson, sem bæði tengjast fjárfestinum Björgólfi Thor Björgólfssyni, eiga ásamt Rønje Holding tæplega 30% í Sjælsø Gruppen í gegnum félagið SG Nord Holding.

Í ársuppgjöri Sjælsø Gruppen, sem birt var í gær, kemur fram að velta félagsins í fyrra nær tvöfaldaðist frá árinu 2006 og nam nærri 100 milljörðum íslenskra króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var um 56% um síðustu áramót á móti 47,5% árið 2006 og arðsemi eiginfjár nam 51,2%.

Sjælsø Gruppen var með 1,9 milljarða danskra króna í lausafjáreignir um áramótin á móti um milljarði árið áður, þar af voru um 886 milljónir í lausu fé til frjálsra afnota á móti 263 milljónum árið áður.