Það má segja að það sé með ólíkindum hvað það rættist úr árinu hjá okkur því að útlitið í mars og apríl var ansi svart,“ , segir Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta, um rekstur félagsins á síðasta ári.

Á meðan flest flugfélög heimsins eru í sárum var Air Atlanta rekið með 5,4 milljóna dollara hagnaði sem samsvarar tæplega 700 milljónum króna og slagar upp í hagnað ársins 2019 sem nam 7,2 milljónum dollara. Félagið þurfti að hugsa reksturinn upp á nýtt eftir að farþegaflug sem stóð undir 65-70% teknanna lagðist af í faraldrinum á meðan vöxtur var í fraktflugi.

Samstæðan í heild, sem nær einnig til flugvélaleigusalans Northern Lights Leasing ehf. og fleiri tengdra félaga, var rekin með 24,2 milljóna dollara hagnaði miðað við 41 milljónar dollara hagnað árið 2019 samkvæmt ársreikningi Haru Holding ehf., móðurfélags samstæðunnar.

Haru Holding hyggst greiða út 58 milljónir dollara í arð vegna starfsemi síðasta árs, sem samsvarar um sjö milljörðum króna en félagið er í eigu fjögurra lykilstjórnenda félagsins.

Hannes Hilmarsson, stjórnarformaður og fyrrverandi forstjóri Atlanta, er stærsti hluthafi Haru Holding með 50% hlut. Geir Valur Ágústsson, fjármálastjóri Atlanta, á 30% hlut og þá eiga Stefán Eyjólfsson og Helgi Hilmarsson, framkvæmdastjórar hjá félaginu, 10% hlut hvor um sig.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .