Þeir framkvæmdir sem hið opinbera mun ráðast í á næstu árum munu skila um 7 þúsund störfum og fjölda afleiddra starfa. Þetta kemur fram í aðsendri grein Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Fréttablaðinu í dag. Nefnir hún þar á meðal byggingu nýs háskólasjúkrahúss og fangelsis og lagningu Vaðlaheiðarganga. Auk þess segir hún að virkjanaframkvæmdir muni skapa sambærilegan fjölda starfa.

„Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur störfum nú fjölgað um 3.600 á tveimur árum auk þess sem þúsundir starfa hafa verið varin. Fjárfestingar fyrirtækja utan stóriðju og orkugeirans eru að glæðast og spáir Seðlabankinn að atvinnuvegafjárfestingin muni aukast um 50 milljarða króna á næstu misserum,“ segir Jóhanna í greininni þar sem hún fer yfir stöðu efnahagsmála.