Bandaríska eignastýringarfyrirtækið Ares Management og kanadíski eftirlaunasjóðurinn Canada Pension Plan Investment Board hafa keypt meirihluta hlutafjár í verslanakeðjunni Neiman Marcus. Kaupverðið nemur sex milljörðum dala, jafnvirði rúmra 720 milljarða íslenskra króna. Kaupendur munu eigna jafnan helmingshlut en stjórnarteymi Neiman Marcus mun eiga minnihluta í versluninni.

Breska dagblaðið Financial Times segir í umfjöllun sinni um málið að meirihlutaeigendur Neiman Marcus, sjóðirnir TPG Capital og Warburg Pincus, hafi leitað leiða til að losa um eignarhluti sína, m.a. skoðað skráningu verslunarinnar á markað fyrr á árinu. Á sama tíma var nýrra kaupenda leitað . Í framhaldi af þeirri skoðun hafi náðst samkomulag um sölu hans til nýrra eigenda.

TPG Capital og Warburg Pincus keyptu meirihluta í Neiman Marcus árið 2005 fyrir 5,1 milljarð dala. Þeir hafi nú setið á hlutnum í átta ár eða lengur en þeir gera alla jafna. Sjóðirnir fjárfesta gjarnan til fimm eða sjö ára.

Financial Times segir Neiman Marcus ekki hafa verið ósnortið af áhrifum fjármálakreppunnar því árið 2009 hafi veltan dregist saman um 21% á milli ára. Tapið hafi numið 668 milljónum dala og verslunin þurft að færa niður virði vörumerkisins í bókum félagsins. Síðan þá hefur reksturinn batnað, þar af aukist um 7% á milli ára í fyrra. Hagnaður Neiman Marcus nam 140 milljónum dala á síðasta ári.