*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 3. apríl 2019 09:35

Sjóður kaupir 11,5% hlut í Icelandair

Bandarískur fjárfestingasjóður hyggst kaupa 11,5% hlut í Icelandair. Fjármagnið verður notað til að færa út kvíarnar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Management hyggst kaupa alla þá 625 milljón hluti í Icelandair, sem samþykkt var í lok nóvember að gefa út, á rúma 5,6 milljarða króna. Hluturinn samsavarar 11,5% hlut, en félagið hyggst nota fjármagnið til að vaxa og „nýta tækifæri á flugmarkaði“, samkvæmt tilkynningu um málið, en ætla má að þar sé verið að vísa til fráfalls helsta keppinautarins, Wow air, í síðustu viku.

Kaupin eru háð samþykki hluthafafundar, sem myndi með því afsala sér forkaupsrétti á bréfunum, en boðað hefur verið til fundar um málið þann 24. apríl næstkomandi. Kaupverðið er 9,03 krónur á hlut, tæp 6% undir gangvirði bréfa félagsins við lokun markaða í gær.

Verði kaupin samþykkt verður sjóðurinn næststærsti hluthafi félagsins á eftir Lífeyrissjóði Verslunarmanna. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir sjóðinn „frábæra viðbót við sterkan hluthafahóp félagsins“. Það sé ánægjulegt að sjá að reyndur alþjóðlegur fjárfestingasjóður deili trú félagsins á möguleikum þess til framtíðar.

PAR Capital Management var stofnaður árið 1990 og er með 4 milljarða Bandaríkjadala, jafngildi tæpra 500 milljarða íslenskra króna, í stýringu. Sjóðurinn fjárfestir aðallega í ferðaþjónustu og stafrænum miðlum.

Stikkorð: Icelandair